gunnar-rúnar.annáll.is

Annáll
Fáum við að gróa til einingar

Gunnar Rúnar @ 11.11 6/1

Hugleiðing á gamlársdag 2008 flutt á Landspítala Grensási og Landspítali Fossvogi

Nú ganga áramót í garð, nýtt ár heilsar og ártal þess gamla hverfur úr daglegri notkun. Árið 2008 víkur fyrir árinu 2009, nýr kafli hefst og við fikrum okkur áfram til þess sem ókomið er. Það er eins og um nýtt upphaf sé að ræða þó auðvitað séu áramót ekkert annað en framhald þess sem var, nýtt augnablik í samfelldri röð augnablika lífsins, enn eitt skref á okkar dýrmætu lífsgöngu. En þetta augnablik er dregið fram í samfélagi okkar og helgað virðingu fyrir breytingunni. “Kynslóðir koma, kynslóðir fara, allar sömu ævigöng…”
Mannssálinni er nauðsyn að nema staðar og horfa yfir farinn veg þegar ferðbúist er til nýs áfanga, hver sem hann er. Við minnumst þess sem við höfum þegið, förum yfir hvernig við erum búin, skoðum hvernig við erum nestuð og hver munu ganga með okkur næsta spölinn.
“Já hvers er að minnast og hvað er það þá, sem helst skal í minningu geyma…”

Kannski ert þú í hópi þeirra sem finnst allt vera á fljúgandi ferð liðið hjá. Og víst þekkjum við það sem hér erum, öll aðeins farin að finna til áranna, að tímavélin virðist snúast hraðar því eldri sem við verðum. Við komumst yfir minna en við vildum og finnst við ekki hafa tök sem skyldi til að nema staðar njóta þess sem er. Annríki hvers dags og umbúnaður fyrir allt sem í hönd fer vill ræna okkur því sem við áttum þegar við vorum börn, því að lifa stundina og njóta þess sem er, hvern dag sem lífið færir.

En hvað var það sem við áttum sem gerði það ekki aðeins kleift heldur eðlilegt að njóta og eiga langa annasama daga, hvern fyrir sig? Áhyggjuleysi er líkast til það sem flest nefna hvað fyrst er þau svara þessu og víst verður því ekki í móti mælt að ef bernskan er heil þá á að fylgja henni öryggi þess að búa í tryggu skjóli foreldra og fjölskyldu. En látum ekki villast í þessu svari því áhyggjuleysi, svo dýrmætt sem það er, er lýsing á líðan sem til verður í tengslum. Það eru tengslin, það að tilheyra, vera virtur hluti af einhverju stærra en maður sjálfur sem vekja öryggi og gefa rótfesti í ölduróti lífsins. Það er líka innan tengslanna sem við lærum og njótum að láta okkur aðra varða, finnum til ábyrgðar og lærum að biðjast velvirðingar á því sem fer á annan veg en ætlast var til. Allt að virðingu við það sem mestu vegur, tengslin. að tilheyra og vera í tenglum.

Öldurót umliðinna mánaða hefur vakið mörum spurnir, og jafnvel undran á viðbrögðum fólks. Svo mikið hefur yfir okkur dunið og er enn að koma fram um skertan og jafnvel hverfandi hag einstaklinga og fjölskyldna að margir eru í miklum og þungum sárum. En takið eftir hvernig umræðan hefur verið, takið eftir þeim tón sem sleginn hefur verið, hvort sem talað er í reiði gagnvart því sem til þessa hefur leitt, eða óvissu um hvar við stöndum, þá hefur mér þótt sem einnig gæti ákveðins léttis og jafnvel vonar á vissu sviði samfélags okkar án þess að á nokkurn hátt sé lítið úr gert þeim efnahagsvanda sem við er að etja eða þeirri ógn sem hann er grundvallarstoðum samfélags okkar, heilbrigðis-, mennta-, félags- og atvinnustarfsemi allri.

Um skeið hefur framgangurinn ógnað samheldni þjóðarinnar, ógnað einingu fjölskyldna sem greinst hafa efnahagslega að, – starfa og möguleika sinna vegna – svo fólk, með sama uppruna, sama bakgrunn og sömu persónutengsl, hefur ekki fundið sig heyra lengur saman, eða geta átt samfélag. Allt þetta vegna ytri aðstöðumunar sem orðið hefur til á aðeins örfáum árum með óréttmætri sundrungu fjársældar og skýlausrar græðgi. Hagsmunatengsl og haggildi hafa orðið sem skurðgoð sem skyggt hafa á nauðsyn þess að vera í einlægum tengslum þar sem manneskjan skiptir máli og manngildið er skilið í samhengi náungakærleika og þess að bera skyldur til annarra. Við stöndum á sárum og viðkvæmum tímum en það er dýrmætt ef týndir synir og dætur fá tækifæri til að snúa heim. Til þess heima sem eitt getur verið heima, þar sem fólk skiptir hvað annar meira máli en tölur, arðsemi og hagsæld með tilheyrandi sjúkdómseinkennum í merkjum, gleri og stáli sem reisa veggi manna ái milli.

Já “Drottin. ó Drottinn vor ver þú oss veikum hjá og vernda þína arfleifð…”,
Um það snýst trúin að vera í tengslum, við Guð og við aðra menn á þann veg að við látum um okkur muna öðrum til styrkingar. Hún snýst um það að hefja upp augun og horfa hvert í annars augu, meðvituð um að við erum jöfn frammi fyrir Guði, að ekkert mannlegt má rjúfa og greina að þó störf okkar og skyldur séu ólík. En störfin eru þjónusta, hlutverk í gangverki sem er stærra en hagur hvers og eins, gangverki sköpunarinnar sem stýrist af umhyggju og ást Guðs sem ekki dvín þó við þekkjum hana ekki eða höfnum. Hann man okkur, og heldur áfram að leita samfélags, tengsla við okkur þar sem við getum vaxið og dafnað í hlutverki því sem okkur er ætlað, að elska hvert annað, vera farvegur elsku Guðs og “leggja smyrsl á lífsins sár, lækna mein og þerra tár..”.

Við göngum vissulega til óvissuárs frá árinu 2008, en við göngum saman og undir vonarbjarma umhyggju sem upphefur hið gildi þess sem manninn varðar og gagnrýnir það allt sem þar ber skugga á, svo lengi sem við munum hver við erum og þiggjum að opna hjörtu okkar fyrir samfylgd með honum sem hjálpar okkur að vera vakandi í umhyggjunni. Með honum fáum við enn eitt ár, ár gefið til að bera ávöxt eins og sá sem gaf okkur lífið væntir af okkur.

Því hræðst þú ei þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
- – í hendi guðs er jörð og sól.

Gef þú oss, Drottinn enn gleðilegt ár og góðar og blessaðar tíðir.

Bæn dagsins, beðin í stað almennrar kirkjubænar.
Eilífi, almáttugi Guð og faðir, þú sem leiðir þennan dag til lykta og hylur hinn ókomna, og af náð þinni gefur oss aðeins eitt andartak í senn. Vér þökkum þér árið sem senn er liðið, fyrir gleði þess og sorgir, allt sem það gaf og tók. Fyrirgef oss vorar skuldir, synd, afbrot, vanrækslu alla. Lát engan líða vor vegna, heldur opna fyrir oss leiðir til að bæta fyrir það sem vér höfum gert rangt, eða látið ógert. Leys oss frá gremju yfir því sem að baki er og kvíða fyrir komandi degi. Kenn oss að nota rétt hverja stund sem þú gefur. í þínar hendur felum vér árið liðna og í trausti til handleiðslu þinnar höldum vér inn um dyr hins nýja. Vísa oss vegu þína, Drottinn, og leið oss gegnum skammdegi lífsins, að vér námum því marki sem þú hefur sett jarðlífsgöngu vorri.
(O. Krook) Jódís Káradóttir, 09/11 2008 http://www.kirkjan.is/truin/kirkjuarid/b/gamlarsdagur 2008.12.31

Gerir depurð mann vanhæfan?

Gunnar Rúnar @ 14.32 29/1

Ég vil gera þunglyndi og depurð að umfjöllunarefni mínu í dag og er tilefni mitt heimsk og óvægin umfjöllun um veikindi Ólafs F Magnússonar borgarstjóra.

Ég er einn þeirra sem mislíkar hvernig fjallað hefur verið um heilsu Ólafs F Magnússonar jafnt opinberlega sem í kaffistofum og spjalli manna á meðal síðustu daga. Það er sem fólk leiti að veikum bletti til að smjatta á, finni sig að meira með því að véfengja færni Ólafs á grunni þess að hann hefur verið í veikindaleyfi vegna geðræns vanda. Illa ætla ég að þeim sjálfum brygði ef aðrir færu svo að þegar þetta fólk hefur orðið veikt og snýr aftur til vinnu eða skyldi ekki það sama eiga við um alla.

Lítum aðeins á manninn sem um ræðir. Hvort sem fólk hefur verið sammála eða fylgt honum að málum eða ekki, þá verður því ekki neitað að hann hefur verið í framvarðasveit í málefnum borgarbúa um langt skeið. Hann hefur þar tekið á og látið sig varða álitamál sem hafa verið til ákvörðunar í borgarmálum eins og kjörið hlutverk hans kallar á. Hann hefur oft staðið í eldlínu, þurft að standa uppi í óvægnu umhverfi stjórnmálanna. Hann hefur ekki valið að skýla sér í fjöldaafstöðu tiltekinna sveita heldur farið fram sjálfur, stundum einn, og staðið á sannfæringu sinni þó við ofurefli hafi verið að etja á stundum. Rödd hans hefur heyrst en það ætti engum að dyljast að það er þungur róður að að sækja lengi einn. Það eru þó margir sem hafa þakkað honum það og hann notið stuðnings nægjanlega margra kjósenda til áframhaldandi starfa í borgarmálum. Það er ekki nokkur efi að hann hefur mikið persónufylgi hvert svo sem framboðið er, sem nýtur fulltingis hans á kjördegi. Hjá því verður ekki komist að líta á þessa staðreynd hvort sem fólk síðan er sammála afstöðu hans eða ekki.

Hann hefur valið að vera sjálfstæður fulltrúi, frekar en að laga sig að flokksheild og samþykktum tiltekinna stjórnmálaafla, og gert grein fyrir afstöðu sinni í álitamálum. En slík vinna sem hann hefur unnið undir gagnrýnni smásjá aflmikilla hagsmunaaðila, fjölmiðla og borgarbúa er lýjandi, slítandi og varhugaverð til langs tíma. Við skulum ekki líta fram hjá því er við tölum um heilsu hans eða leyfum okkur að tala gálaust um depurð, hryggð og orkuþurrð líkama, sálar og anda. Frekar þykir mér við eiga að taka ofan fyrir því að þessi bróðir okkar sýndi það þrek að nema staðar og leita sér hjálpar. leita uppbyggingar og hvíldar eftir að hann fann sig svo langt niðri sem hann lýsti sjálfur svo vel í viðtali í 24 stundum. Hann tók sig út úr hringiðu fjölmiðlaathyglinnar og þáði stuðning, meðferð og aðhlynningu til að byggja sjálfan sig upp og efla að nýju. Hann sýndi þar ábyrgð og árvekni fyrir sér og störfum sínum sem hann hefur nú aftur treyst sér til að vinna.

Ég vil segja við Ólaf F.: Velkominn aftur og megi fordæmi þitt í því að sinna um sjálfan þig, taka alvarlega veikindi þín og bregðast við þeim, verða öðrum til eftirbreytni. Það er ómetanlegt fyrir okkur öll þegar svo sýnilegur maður, sem Ólafur F. Magnússon er, tekur sér tak, gengst við geðrænum veikindum sem svo lengi hafa verið hlaðin fordómum i hugum fólks. Slíkt fordæmi burðugs einstaklings ryður burt hindrunum og hjálpar til að brjóta leið fyrir aðra til að leita sér lækningar við áþekkum sjúkdómum. Sú umræða sem verið hefur sl daga um heilsu boragarstjóra gengur hins vegar þvert á það sem við þurfum og mun líklega frekar verða til þess að einhverjir að gangast ekki við depurð sinni, kvíða og vonleysi og þiggja ekki aðhlynningu þegar þeim er þörf, af ótta við að vera afskrifaðir sem vanfærir til ákvarðana og fullrar þátttöku er þeir snúa aftur til starfa sinna.

Við þurfum að opna vitund og virðingu samfélags okkar fyrir þeirri staðreynd að við getum öll veikst, jafnt á líkama sem sálu og anda. Við þurfum öll að hafa óhindraðan aðgang að stuðningi og aðhlynningu til að ná aftur fullri heilsu hver sem veikindin eru. Sá sem veikist velur ekki veikindi sín og því skyldum við þá draga í dilka eftir veikindaflokkum Heldur skulum við fagna bata og hlúa að þeim okkar á meðal sem veikir eru. Það gengur ekki að upplýst samfélag haldi áfram að skipta manneskjunni niður og greina veikindi hennar í gildisflokka. Maðurinn er einn, líkami, sál og andi. Veikindi eru veikindi, af hverjum toga sem þau eru. Það er ennfremur skylda okkar sem upplýsts samfélags að standa vörð um og styðja hvern þann sem veikur verður okkar á meðal til endurnýjunar, afls, getu og færni eftir því sem nokkur kostur er. Því tek ég ofan fyrir Ólafi F Magnússyni og fagna því að hann hefur aftur náð svo góðri heilsu að hann treystir sér til að takast á við hlutverk, stjórnmálanna, hlutverk sem hann þekkir svo vel og veit fullvel hvaða kröfur gerir til hans.

 

© gunnar-rúnar.annáll.is · Færslur · Ummæli